Jana

jana

Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir er varabæjarfulltrúi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs á Akureyri. Hún er fulltrúi í Umhverfis- og mannvirkjaráði og Hafnarsamlagi Norðurlands.

Jana er 29 ára, fædd og uppalin á Akureyri. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 2011. Þaðan fór hún í Háskóla Íslands og lauk BSc. gráðu í Efnafræði.

Jana bjó í Berlín í einn vetur og sótti tíma í söng. Eftir það kláraði hún eina og hálfa önn í klassískum söng við Listaháskóla Íslands. Hún hefur starfað mikið við ferðaþjónustu og á sumrin er hún hótelstjóri á Hótel Eddu.

Jana hefur tekið þátt í starfi VG frá 18 ára aldri. Hún hefur setið í stjórnum svæðisfélaganna á Akureyri og í Reykjavík, ásamt því að vera í Ungum vinstri grænum.

Hún var formaður Röskvu, samtaka félagshyggjufólks við Háskóla Íslands 2013-2014.

Jana er glæný í sveitastjórnamálum, en það getur oft verið gott að fá nýja og ferska sýn á hlutina í bland við reynslu.

Jana hefur vítt áhugasvið, klassískur söngur og íþróttir spila þar stórt hlutverk ásamt ferðaþjónustu. Hún er feministi og leggur mikla áherslu á jafnréttismál.

„Mér finnst mjög mikilvægt að ungt fólk hafi rödd og komist til áhrifa. Því miður er það ekki oft sem ungum kjósendum gefst færi á að kjósa jafnaldra sína í kosningum. Mér finnst óendanlega mikilvægt að allir þeir sem hafi kosningarétt nýti hann hvort sem þeir eru ungir eða aldnir. Þetta er okkar tæki til að hafa áhrif og velja það fólk til áhrifa sem okkur hugnast best.

Klisjukennda setningin um að unga fólkið sem framtíðin á vel við, því hugsjónir þeirra sem ná kjöri núna hafa áhrif á stefnumótun til framtíðar. Ég vil lifa í samfélagi þar sem allir hafa mannsæmandi kjör. Mannréttindi eru mannréttindi allra. Við þurfum að styrkja grunnstoðir bæjarins enn frekar til að allir fái jöfn tækifæri.

Sveitarfélög eru samfélög en ekki fyrirtæki. Mikilvægt er að varðveita það og sjá til þess að allir njóti jafnra tækifæra til athafna og tilveru. Við verðum að koma á sómasamlegu úrræði fyrir heimilislausa einstaklinga innan íbúðasvæða bæjarins. Tryggja verður aðgengi að leikskóla strax að loknu fæðingaorlofi, samhliða lengingu fæðingarorlofs í a.m.k. 12 mánuði.

Menntun er hornsteinn jöfnuðar. Horfum til framtíðar og gerum frístundastarf og skólamáltíðir endurgjaldslausar í áföngum ásamt því að stefna að endurgjaldslausri leik- og grunnskólamenntun.

Akureyri þarf að halda áfram að vera leiðandi í flokkun sorps og umhverfismálum almennt. Skyldum stærri fyrirtæki til flokkunnar og vinnum að því að bæta enn frekar flokkun sorps frá heimilum.

Minnkum svifryk, höldum plastnotkun í algjöru lágmarki og drögum úr almennri sóun.

Þróum og þjónustum samgöngukerfi bæjarins með það að leiðarljósi að stuðla að bíllausum lífstíl og hvetja til hreyfingar.“